fbpx
© Hlynur Helgason

Starfsreglur Tangófélagsins

Starfsreglur Tangófélagsins

1. gr.
Félagið heitir Tangófélagið, á ensku Tango Club Reykjavik. Heimili og varnarþing er í Reykjavík.

Markmið og leiðir
2. gr.
Markmið félagsins er að efla argentínskan tangódans á Íslandi.

3. gr.
Félagið vinnur að markmiði sínu m.a. með því:
Að koma saman reglulega til að dansa tangó
Að fá hingað til lands erlenda tangókennara
Að fara saman á erlenda tangóviðburði
Að halda uppi samskiptaneti félagsmanna
Að kynna argentínskan tangó innanlands

Aðild
4. gr.
Allir þeir sem áhuga hafa á argentínskum tangó geta orðið aðilar að félaginu.

Fjármál
5. gr.
Félagsmenn skulu greiða félagsgjald fyrir 1. nóvember ár hvert, samkvæmt ákvörðun aðalfundar hverju sinni. Greiði félagsmaður ekki félagsgjald sitt í tvö ár er stjórn félagsins heimilt að líta á það sem úrsögn úr félaginu. Greiði nýr félagsmaður ekki fyrsta félagsgjald sitt er heimilt að líta á það sem úrsögn.
Ákvörðun um aðra fjármögnun starfsins er í höndum stjórnar. Reikningsár félagsins miðast við 1. október.

Félagsfundir
6. gr.
Félagsfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda fyrir lok október ár hvert. Aðalfund og félagsfundi skal boða bréfleiðis eða á annan tryggilegan hátt, með minnst viku fyrirvara. Drög að fyrirhuguðum breytingum á starfsreglum skulu fylgja með fundarboði. Félagsfundur er lögmætur ef löglega er til hans boðað. Hver skuldlaus félagsmaður hefur eitt atkvæði á félagsfundi.

8. gr.
Þessi mál skulu tekin fyrir á aðalfundi:
a) Skýrsla um störf félagsins á liðnu starfsári
b) Reikningsskil
c) Breytingar á starfsreglum
d) Kosning stjórnar og skoðunarmanna
e) Ákvörðun árgjalds
f) Starfs- og fjárhagsáætlun
g) Önnur mál.

Breytingar á starfsreglum
9. gr.
Starfsreglum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi. Breytingatillögum við starfsreglur skal skilað til formanns eigi síðar en 30. september ár hvert. Til að slík tillaga nái fram að ganga þarf samþykki 3/5 hluta greiddra atkvæða.

Stjórn
10. gr.
Aðalfundur kýs fimm stjórnarmenn úr hópi atkvæðisbærra félagsmanna. Stjórnin skiptir með sér verkum.

11. gr.
Stjórnin ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum sem þessar starfsreglur setja. Hún tekur nánar ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Hún skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns og gjaldkera nægileg til þess.

12. gr.
Formaður boðar til stjórnarfundar. Skylt er að halda stjórnarfundi ef stjórnarmaður gerir um það kröfu. Fundur stjórnar er ályktunarfær ef tveir stjórnarmenn, hið fæsta, sækja fund. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum máls á stjórnarfundum.

Skoðunarmenn
13.gr.
Á aðalfundi skal kjósa skoðunarmann reikninga, sem skal fara yfir reikninga félagsins og staðreyna hvort ársreikningur sé gerður í samræmi við góða bókhaldsvenju. Við þessa vinnu sína skal skoðunarmaður kanna bókhaldsgögn félagsins og aðra þætti er varða rekstur þess og stöðu. Þá skal skoðunarmaður kanna hvort reikningar séu í samræmi við ákvarðanir félagsfunda og stjórnar. Skoðunarmaður skal árita ársreikninga félagsins um að endurskoðun hafi farið fram.

Slit
14. gr.
Tillögu um slit félagsins er eingöngu hægt að leggja fyrir aðalfund og telst hún þá samþykkt ef 3/4 hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði, enda sitji a.m.k. 3/4 hlutar atkvæðisbærra félagsmanna fundinn. Eignir félagsins skulu renna til þeirra félagasamtaka sem slitafundur ákveður að samræmist best markmiðum félagsins.

Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins

Reykjavík, 13. nóvember 2018.

Tango Club Reykjavík