Le Grand Tango 10. mars í Hörpu

Upplýsingar frá aðstandenum tónleika sem haldnir verða í Hörpu:

Le Grand Tango
Sígildir sunnudagar í Hörpu, Norðurljósum
sunnudaginn 10. mars 2019  kl. 16

Le Grand Tango er tangóseptett sem kemur saman í kringum bandoneonleikarann og tónskáldið Olivier Manoury. Ásamt honum leika nokkrir af fremstu hljóðfæraleikurum landsins, þau Edda Erlendsdóttir píanó, Auður Hafsteinsdóttir 1. fiðla, Geirþrúður Ása Guðjónsdóttir 2. fiðla, Þórunn Ósk Marínósdóttir víóla, Bryndís Halla Gylfadóttir selló, og Richard Korn kontrabassi.

Hópurinn hefur komið víða fram m.a. á Listhátíð í Reykjavík, Iðnó, Salnum, á Akureyri, Ísafirði og víðar. Þau tóku upp geisladisk með Agli Ólafssyni söngvara fyrir nokkrum árum.

Á efnisskrá eru bæði gömul verk í nýjum útsetningum Oliviers Manoury og nýrri verk. Bandoneonsnillingurinn og tónskáldið Astor Piazzolla var upphafsmaður „tango nuevo“, eða hins nýja tangó, sem olli straumhvörfum í tangótónlist eftir I960 og hafði í för með sér aðskilnað tónlistarinnar og dansins, en opnaði um leið nýjar víddir inn í heim tónlistarinnar. Le Grand Tango setur sér það markmið að flytja fjölbreytta tangótónlist, allt frá danstónlist til kammerverka og einnig að endurvekja þá tegund tónlistar sem er bæði til þess fallin að hlusta á og dansa eftir.

Olivier Manoury hefur allt frá árinu 1979 starfað sem bandoneonleikari með hljómsveitum, söngvurum og tangódönsurum. Hann hefur haldið tónleika og tekið þátt í listahátíðum víðsvegar um heiminn. Auk þess að semja og útsetja tónlist hefur Olivier samið fyrir kvikmyndir, leikhús og ballett. Eftir hann liggja upptökur á fjölmörgum geisladiskum.

Tangó á rætur að rekja til Buenos Aires í Argentínu stuttu fyrir aldamótin 1900. Eins og í mörgum borgum Suður-Ameríku á þeim tíma, settist mikill fjöldi innflytjenda að í Buenos Aires og varð tangóinn hin nýja tónlist þeirra, eins konar samsuða margbrotins fjölda hinnar ört vaxandi borgar og fór eins og eldur í sinu um allan heim.
Tangó á sér ótal margar hliðar, hann er tónlistarlegur fjársjóður, fullur ástríðu, trega og glettni. Í hinum upprunalega tangó var gítarinn ráðandi hljóðfæri, en bandoneon sem oft er kallað tangóharmonika og er ættað frá Þýskalandi, varð fljótt ómissandi hljóðfæri tangótónlistar.
Eins og tónlistin, á dansinn rætur að rekja til margbrotinnar alþýðu Buenos Aires og varð til undir áhrifum frá ólíkum áttum. Frá því að tangófárið reið yfir heimsbyggðina á árunum 1920-1940, hefur hann orðið að sérstakri hefð í dansmenningu og er stundaður af stórum hópi dansáhugafólks og atvinnudansara við miklar vinsældir, ekki síst í Evrópu og Bandaríkjunu