Tangófélagið kveður góða vinkonu, Stellu hans Kristins, með söknuði.
Stella og Kristinn voru mikilvægur hluti af grunnstoðum tangósamfélagsins frá stofnun félagsins fyrir rúmum tuttugu árum. Minningarnar af óteljandi tangókvöldum og viðburðum með þeim hjónum eru ómetanlegar. Stella kom á milongur og dansaði áfram eftir að hún veiktist. Hún þurfti orðið aðstoð Kristins til að komast í dansskóna, en þegar í þá var komið dansaði hún tangó af sinni einstöku mýkt. Þegar hún þurfti frá að hverfa var mikill missir að Stellu í samfélaginu okkar og nærveru hennar á milongum var saknað.
Eftir að Stella flutti á Droplaugarstaði dönsuðu hún og Kristinn tangó. Stella, Sigurlaug Bjarnadóttir, kvaddi mánudaginn 10. júní eftir áralanga baráttu við Alzheimer-sjúkdóminn.
Stjórn Tangófélagsins vottar Kristni og fjölskyldu Stellu dýpstu samúð.
Þann 21.6. kl. 13.00 verður haldin minningarathöfn og erfidrykkja fyrir Stellu á Nauthól. Siðmennt sér um athöfnina. Leikin verður tangótónlist og Hany og Bryndís sýna tangó. Athöfninni lýkur með því að það verða leikin nokkur tangólög og tangófélagar eru hvattir til þess að taka með sér skó og taka þátt í dansi.
Allir tangófélagar eru velkomnir.